Þórsberg eykur kvótann um 56%

Guðjón Indriðason, framkvæmdastjóri Þórsbergs ehf. Mynd: audlindin.is

Þórsberg ehf á Tálknafirði hefur aukið kvóta sinn í krókaaflamarkskerfinu um 56% með kaupum á hlutafélaginu Grábrók ehf. af Brim hf.

Þórsberg ehf gerir út Indriða Kristins BA sem fékk 1.317 þorskígildistonn úthlutað í upphafi fiskveiðiársins  og Grábrók ehf á Steinunni HF sem er með 744 þorskígildistonn.  Guðjón Indriðason, framkvæmdastjóri Þórsbergs ehf  sagði í samtali við Bæjarins besta að kvótinn yrði sameinaður á Indriði Kristins BA og það styrkti verulega útgerð bátsins. Samanlagður kvóti verður 2.061 þorskígildistonn.

Kaupin eru um garð gengin og voru síðustu hnútarnir hnýttir í gær sagði Guðjón. Greitt er með skiptum á hlutabréfum í félögunum. Þórsberg eignast öll hlutabréfin í Grábrók og Brim eignast um 41% í Þórsberg. Ekki er um skuldsetningu félaganna að ræða.

Brim hf var í þeirri stöðu að eftir að hafa eignast Kamb og Grábrók var félagið komið yfir það hámark sem það má eiga í krókaaflamarkskerfinu og varð að minnka kvóta sinn. Með sölunni á Grásteini til Þórsbergs er Brim komið undir mörkin. Guðjón sagði að viðskiptin væru báðum félögunum hagstæð, Þórsberg styrkti útgerð sína og Brim kaupir aflann af Indriða Kristins BA.

Að sögn Guðjóns er Indriði Kristins BA gerður út á þorskveiðar og fer um landið eftir því hvar orskveiðarnar eru bestar á hverjum árstíma. Frá áramótum og fram undir páska er róið fyrir vestan, þá er farið til Grindavíkur og verið þar fram í maí. Þaðan liggur leiðin vestur eða austur.

„Þetta er góð lausn fyrir báða. Ég er ánægður með kaupin“ sagði Guðjón Indriðason.

Indriði Kristins BA.
Mynd: ruv.
DEILA