Rebekka Hilmarsdóttir: krafa Reykjavíkurborgar úr takt við tilgang Jöfnunarsjóðs

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir það miður að sveitarfélög finni sig knúin til að stefna Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem  í raun sé ekkert annað en að Reykjavíkurborg sé að stefna sveitarfélögum landsins.

„Að mati Vesturbyggðar er krafa Reykjavíkurborgar á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga galin og úr takti við tilgang og markmið Jöfnunarsjóðs. Vesturbyggð sem og önnur sveitarfélög fjarri suðvesturhorni landsins eru í þeirri stöðu að vera algjörlega háð framlögum Jöfnunarsjóðs til að veita svipaða lögbundna þjónustu og veitt er á suðvestur horni landsins.“

Reykjavíkurborg getur aukið tekjurnar

Rebekka bætir því við að Sé Reykjavíkurborg í það miklum tekjuvanda að krafist er þess að fá rúma 8 milljarðar kr. úr  Jöfnunarsjóði, þá hefði borgin mátt byrja á að horfa til aukinna tekjumöguleika m.a. útsvarið og fasteignaskatturinn.

„Hver og einn útsvarsgreiðandi skiptir t.d. Vesturbyggð gríðarlega miklu máli, enda er sveitarfélagið fámennt og hver króna mikilvæg til að snúa samfélagi. Það er svo staðreynd að flest opinber störf er hjá Reykjavíkurborg og fer útsvar af þeim störfum til borgarinnar. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig tekjumöguleika sem önnur sveitarfélög dreymir um, eins og fasteignagjöld af opinberum byggingum. Þrátt fyrir að álagningarstuðull hjá Reykjavíkurborg sé ekki í botni eins og hjá mörgum sveitarfélögum, þá má ætla að það skili einhverjum tekjum í borgarsjóð. Það er miður að Reykjavíkurborg sjái ekki alla þá miklu möguleika sem borgin hefur til að auka tekjur sínar, áður en farið er af stað með kröfu á hendur Jöfnunarsjóði.“

DEILA