Önundarfjörður: Hóll á Hvilftarströnd eða Hóll í Firði

Teikning af fyrirhuguðu íbúðarhúsi á Hóli á Hvilftarströnd.

Eigendur jarðarinnar Hóll á Hvilftarströnd í Önundarfirði telja að skipulags- og mannvirkjanefnd Isafjarðarbæjar fari jarðavillt í afgreiðslu sinni á erindi þeirra þar sem óskað er eftir heimild til þess að reisa nýtt íbúðarhús og rafstöð á jörðinni. Nefndin hafnaði í júní síðastliðnum erindinu og segir að vegna eðlis og umfangs framkvæmdanna á Hóli þurfi að deiliskipuleggja svæðið áður. Var umsækjendum og landeigendum ráðlagt að sækja um heimild til deiliskipulagningar.

Eigendurnir, Birkir Þór Guðmundsson og Kristín Björg Albertsdóttir, óskuðu eftir rökstuðningi nefndarinnar og barst hann 28. október. Þar er vísað til aðalskipulags Ísafjarðarbæjar „sem heimilar þrjú frístundahús á lögbýlinu ef aðstæður leyfa, sbr. töflu 7.19 ákvæði F37.“

Annar Hóll ?

Strax þann 30. október rita eigendurnir bréf til bæjarstjórnar og til skipulags- og mannvirkjanefndar og ítreka ósk sína um að fá að hefja framkvæmdir. Segir í bréfinu að þau séu ekki alls kostar sátt við svörin og segja tilvísun nefndarinnar vísar „í allt aðra jörð en um ræðir, þ.e. Hól í Firði, en ekki Hól á Hvilftarströnd.“

„Hvergi er vikið að uppbyggingu frístundabyggðar á Hóli á Hvilftarströnd, sem skilgreint er eyðibýli lögum samkvæmt, þó lögbýli sé, þar sem ekki hefur verið búið þar sl. 70 ár.
Engar byggingar eru fyrir hendi á jörðinni, en umsækjendur hafa áform um að taka lögbýlið aftur til ábúðar“ segir í bréfinu.

Bæjarráðið tók málið fyrir í gær og vísaði því til skipulags- og mannvirkjanefndar.

DEILA