Norlandair hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirlýsingar Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV), og segir að það sé knúið til að leiðrétta rangfærslur sem þar birtast.
Rangfærslur SASV snúa að tækjabúnaði félagsins segir Norlandair.
„Til stendur að nota nýlega 9 sæta Beechcraft B200 King Air, sem búin er jafnþrýstibúnaði. Jafnframt verður notast við Dash 8-200, sem er 37 sæta, þegar og ef þörf krefur. Að auki býr félagið yfir þremur Twin Otter flugvélum sem þykja einstaklega hentugar við erfiðustu skilyrði á norðurslóðum, en þær vélar notast félagið mest við á Grænlandi.
Á vormánuðum var félagið komið langt með að tryggja sér Dash 8 flugvél, en þau áform frestuðust sökum COVID-19.
Það er hafið yfir allan vafa að tækjabúnaður sem notast verður við er mjög góður og stenst allar kröfur.“
Þá kemur fram að „Norlandair rekur 5 flugvélar og hefur sinnt áætlunarflugi fyrir Vegagerðina í 12 ár, auk leigu- og sjúkraflugs á N-Atlantshafinu. Félagið er skuldlaust og með milljarð í eigið fé. Rætur þess liggja í Flugfélagi Norðurlands sem rann saman við Flugfélag Íslands (nú Air Iceland Connect) árið 1997. Gott samstarf hefur verið milli Flugfélags Íslands / AIC frá þeim tíma sem Norlandair tók á sig mynd árið 2008.“
Norlandair segir í yfirlýsingunni að það uppfylli öll skilyrði útboðsins og það mjög rúmlega.
Stærstu eigendur Norlandair eru Air Greenland með 25% eignarhlut, KEA eignir ehf með 21,87% og Samherji sem á 11,53%. Fjórði stærsti hluthafinn er Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair með 11,49%. Mýflug á 8,14% og Flugfélag Íslands 7,65%.