MÍ: kennsla að mestu í fjarnámi til jóla

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði segir að ekki hafi miklu verið breytt eftir síðustu reglugerðarbreytingu um sóttvarnir. Verknámsnemar og nemendur á starfsbraut mæta í staðkennslu með þeim takmörkunum sem eru í gildi um fjarlægðarmörk og grímuskyldu. Mötuneytið er eingöngu opið fyrir heimavistarbúa. Bóknámið er allt í fjarkennslu en nýnemum hefur verið boðið að koma í skólann á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum í einn áfanga og vinnustofur í ýmsum námsgreinum frá kl. 9:00-12:50.

„Það er mat okkar stjórnenda og náms- og starfsráðgjafa að [það sé mikilvægt að] fá nýnema inn í skólahúsnæðið nú í lok annar til að geta sinnt náminu og til að reyna að tryggja að þau haldi áfram námi á vorönn. Kennurum hefur verið boðið að hafa vinnustofur fyrir einstaka hópa eldri nemenda en þeir hafa lítið notfært sér það. Ekki er líklegt að það verða gerðar breytingar það sem eftir er annarinnar. Stjórnendur eru að skipuleggja vorönnina út frá reynslunni á þessari önn og verða þær lagðar fyrir kennarafund í næstu viku.“