Margt gott að gerast á Flateyri!

Staðan í atvinnumálum á Flateyri í nánustu framtíð lítur vel út að mínu mati, mig langar að deila með því sem er að gerast, þarna eru mörg lítil fyrirtæki að hefja rekstur eða eru þegar farin af stað.

Gæludýra fóðurframleiðslan komin af stað undir styrkri stjórn Péturs Jónssonar Í húsnæði að Hafnarbakka sem ÁB fasteignir festu kaup á af þrotabú WS og er komin fjölbreytt starfsemi í það húsnæði. ÁB fasteignir er með aðstöðu fyrir sína starfsemi í sama húsi en þeir sjá um snjómokstur á Flateyri og í Önundarfirði. Orkuverk ehf er einnig staðsett þar, bæði þessi fyrirtæki eru í eigu Ásgeirs Mikaelssonar úr Breiðadal og Birkis Guðmundssonar frá Hrauni hafa þessir aðilar reist 3 virkjanir í Ísafjarðarbæ á skömmum tíma þar af 2 í Önundarfirði.

Björgunarsveitin Sæbjörg festi kaup á stórum hluta af því húsnæði sem ÁB fasteignir keyptu af þrotabúi WS og eru fluttir þar inn, þar verður einnig staðsett heilsugæslusel á vegum Hvest og eru framkvæmdir á fullu við innréttingar og klæðningar á þessu húsnæði öllu.  Í kaupum ÁB fasteigna á Þrotabúi WS fylgdi með beitningarskúr sem búið er að breyta í vinnsluhúsnæði fyrir Kalksaltið hjá Sæbjörgu og Eyvindi, góðir hlutir að gerast þar. Bátur þrotabúsins var seldur til Sólbergs sem átti Ísborgina á Ísafirði en fyrirtækið er nú flutt á Flateyri og gerir bátinn út þaðan.

Í húsnæði að Hafnarbakka 8 er verið að leggja lokhönd á að innrétta vinnslu fyrir Sæbjúgu á vegum Aurora Seafood ehf og er skip fyrirtækisins Tindur ÍS að róa frá Flateyri. Að Hafnarbakka 8 er líka Ísfell með nóta þvott og verkstæði tengdu fiskeldi.

Á Oddavegi 9 er staðsett Fiskvinnslan Hrefna og er hún að vinna afurðir úr regnbogasilungi og laxi  og heitir varan Ísfirðingur, mjög góð vara hjá henni. Að Hafnarbakka 3 er Walvis ehf sem þjónustar fiskmarkaðinn og báta sem landa á Flateyri. Iceland Pro Fishing er með sjóstangaveiði á sumrin.

Að Hafnarbakka 6 er ÍS 47 ehf til húsa, það fyrirtæki hefur verið með fiskeldi á Önundarfirði síðan 2011. Fyrirtækið er að fá rekstrarleyfi fyrir 1000t lífmassa og samkvæmt Mast ætti það að koma í næstu viku, mun þetta fjölga störfum töluvert svo vitnað sé í gögn Byggðastofnunar að 1000t hafi 10 – 12 störf í för með sér.

Svo má nefna verkefnastjóra Flateyrar, Helenu Skaftason Jónsdóttir sem er að gera góða hluti fyrir svæðið og hvetja fólk til góðra verka. Ekki má gleyma Gömlu bókabúðinni, Gunnukaffi, Lýðskólanum og því lífi sem nemendur skólans glæða Flateyri, Litlabýli gistiheimili, Bryggjukaffi, Skúrina, Vagninn og margt fleira og vonandi er ég ekki að gleyma neinum.

Ég lít björtum augum til framtíðar á Flateyri, þar eru margir góðir hlutir að gerast.

Gísli Jón Kristjánsson

Eigandi ÍS 47 ehf.