Mannfjöldi á Íslandi frá 1970–2020

Sveiflur í mannfjöldatölum skýrast fyrst og fremst af búferlaflutningum til og frá landinu.

Árið 2019 fluttust 4.961 til landsins umfram brottflutta og voru aðfluttir 12.006 en brottfluttir 7.045. Þetta er 1.595 færri en árið 2018 þegar 6.556 fleiri fluttust til landsins en frá því, en það er næsthæsti flutningsjöfnuður sem vitað er af fyrr og síðar. Einungis árið 2017 var flutningsjöfnuðurinn hærri þegar 8.240 fleiri fluttust til landsins en frá því.

Árið 2019 fæddust 4.452 börn á Íslandi, 2.267 drengir og 2.185 stúlkur, en það jafngildir 1.037 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum. Þetta eru aðeins fleiri börn en árið 2018 þegar 4.228 barn fæddist.
Fæðingartala ársins 2019 jafngildir því að hver kona fæði 1,745 börn á ævi sinni. Jafnan er miðað við að þetta hlutfall þurfi að vera rúmlega 2 börn, að minnsta kosti ein stúlka, til þess að þjóðinni fjölgi miðað við óbreytta dánartíðni og jafnvægi í flutningsjöfnuði. Fæðingarárgangurinn 2019 er sá 29. stærsti frá árinu 1951.

Árið 2019 létust 2.275 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.157 karlar og 1.118 konur. Dánartíðni á hverja 1.000 íbúa var 6,3 en hún hefur verið 6,1 til 6,5 prómill frá upphafi aldarinnar.

Árið 2019 gátu nýfæddir drengir vænst þess að verða 81,0 ára en stúlkur 84,2 ára.

Frá árinu 1987 hafa karlar bætt við sig tæplega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd.

Hinn 1. janúar 2020 voru 55.354 innflytjendur á Íslandi, 15,2% af mannfjöldanum og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Fram til ársins 2004 voru konur jafnan í meirihluta þeirra sem fluttust til landsins.

Árið 2004 snerist það við og mikill aðflutningur karlmanna olli því að í ársbyrjun 2008 bjó á Íslandi 1.041 karl á móti hverjum 1.000 konum. Á árunum eftir jafnaðist hlutfallið jafnt og þétt og fór lægst í 1.005 1. janúar 2014.
Hin síðari ár hefur hlutfallið aftur hækkað jafnt og þétt og náði 1.055 körlum á móti hverjum 1.000 konum í ársbyrjun 2020 og hefur aldrei verið hærra.