Kía Sorento sæmdur hinu eftirsótta Gullna stýri

Nýr Kia Sorento hefur verið sæmdur hinu eftirsótta Gullna stýri en tilkynnt var um verðlaunin í Þýskalandi um helgina. Kia Sorento hafði betur í úrslitum við Aston Martin DBX og BMW X6 í flokki stórra sportjeppa.

Verðlaunin eru talin ein þau eftirsóttustu í bílaiðnaðinum í Þýskalandi.
Það eru fjölmiðlarnir Auto Bild og Bild am Sonntag sem standa að verðlaununum sem voru fyrst veitt árið 1976.

Fjórða kynslóð Kia Sorento er nýkomin á markað og hefur fengið mjög góðar viðtökur. Þessi stóri og stæðilegi bíll er enn rúmbetri en forveri hans og er sjö manna.

Bíllinn hefur auk þess mikla dráttargetu. Sorento kemur nú með þremur mismunandi orkugjöfum; sem tengiltvinnbíll (Plug-in Hybrid), tvinnbíll (Hybrid) og í dísilútfærslu.

„Aksturseiginleikarnir eru sérlega góðir og hönnunin mjög vel heppnuð. Það er mikið pláss fyrir fólk og farangur, hönnun innra rýmisins er mjög góð sem og tækni og öryggisatriði,“ segir Tom Drechsler, aðalritstjóri Auto Bild.

Þess má geta að nýr Sorento var frumsýndur hjá Öskju í síðustu viku.