Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt og aukið starfsleyfi fyrir Íslenska kalkþörungafélagið sem gildir til 9. maí 2034. Starfsleyfið byggir umsókn fyrirtækisins um 35 þúsund tonna árlega framleiðsluaukningu kalks úr 50 þúsund tonnum í 85 þúsund tonn. Von er á uppfærðri útgáfu starfsleyfisins á vef Umhverfisstofnunar.
Þann 30. júní 2016 kynnti Kalkþörungafélagið Skipulagsstofnun áform sín um framleiðsluaukningu kalks á Bíldudal og leitaði stofnunin í kjölfarið umsagna frá hagsmunaaðilum. Þeirra á meðal eru Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Hafrannsóknarstofnun, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum yfirfór Skipulagsstofnun gögn félagsins sem lögð voru fram ásamt umsögnum sem bárust. Á grundvelli þeirra var það mat Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framleiðsluaukning væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi framkvæmdin því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samfara umsókn félagsins hefur fyrirtækið látið útbúa nýtt hljóðstigskort fyrir áhrifasvæði verksmiðjunnar og endurskoðað mengunarmælingar og vöktunaráætlun í samvinnu við viðeigandi stofnanir.
Í nýja starfsleyfinu sem Umhverfisstofnun staðfesti 11. maí er tekið fram að starfsleyfið hafi ekki tekið efnislegum breytingum umfram orðalagsbreytingu í grein 4.2 um mengunarmælingar sem hafa verið endurskoðaðar til að bæta gæði þeirra.