Ísafjörður: hreystivöllur við Hvest

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að kaupa 8 líkamsræktartæki, sem heita hreystitæki í bókuninni, sem verða ett upp við Hlíf á lóð Heilbrigðisstofnunarinnar. Ákvörðunin er komin til vegna covid19 veirunnar sem hefur aukið félagslega einangrun, og á stundum dregið úr virkni til þess að viðhalda líkamlegri færni, einkum í hópi aldraðra.

Ef því ætlunin að koma upp útiaðstöðu þar sem fólk gæti stundað æfingar við hæfi en jafnframt umgengist fólk að viðhöfðum öryggisráðstöfunum.  Hér er ekki einungis
um úrræði fyrir eldri borgara að ræða, heldur alla íbúa sveitarfélagsins segir í minnisblaði Margrétar Geirsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs sem lagt var fyrir bæjarráðið.

Starfsfólk endurhæfingar Hvest valdi fyrstu sex tækin sem best henta öldruðum en jafnframt öllum öðrum, ásamt skilti sem sýnir hvernig nota á tækin.

Á þessu ár verður varið 7 milljónum króna til kaupa á tækjunum og síðan vrði um 1,5 milljón króna bætt við á næsta ári vegna gervigras og uppsetningar tækjanna.

Kostnaðinum í ár er mætt með því að fresta kaupum á bifreið fyrir Hvestu.

Málið fer nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.