Ísafjarðarbær hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA árið 2020

Ísafjarðarbær er á meðal þeirra fyrirtækja og opinberu aðila sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA á stafrænni ráðstefnu og viðurkenningarathöfn Jafnvægisvogarinnar sem haldin var fimmtudaginn 12. nóvember.

Fyrr á þessu ári var undirrituð viljayfirlýsing Ísafjarðarbæjar og FKA til næstu fimm ára þar sem Ísfjarðarbær heitir því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, forsætisráðuneytisins, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Morgunblaðsins. Tilgangur verkefnisins er:

Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60

Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir

Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar

Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis

Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður

Verkefninu var komið á fót á árinu 2017 og hefur náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum.