Ísafjarðarbær : fasteignaskattar hækki um 3%

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fjárhagsáætlun næsta árs á fundi sínum í gær.  Lagt fram minnisblað  fjármálastjóra varðandi skatthlutföll fasteignagjalda fyrir áætlun ársins 2021, auk helstu markmiða áætlunarvinnunnar.

Fram kemur að rætt hafi verið um að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækki um 3%, á meðalheimili, að tiltekinni hækkun á fasteignamati. Jafnframt var rætt um að sorpgjald standi undir kostnaði per heimili.

Þá er bókað að gera eigi ráð fyrir auknum kostnaði á mannauðsdeild til að leita lausna við heilsueflandi aðgerðir, með það að markmiði að draga úr veikindafjarvistum.

Niðurstaða bæjarráðs var að fela bæjarstjóra að vinna fjárhagsáætlun 2021 áfram með það að markmiði að lágmarka fyrirséðan rekstrarhalla næsta árs.