Ísafjarðarbær: skólastarfið hefur eflst eftir yfirfærsluna

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að færsla grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaga  hafi verið skynsamleg og að skólastarfið hafi þróast umtalsvert síðan.

Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Bæjarins besta um fjárhagslega reynsla Ísafjarðarbæjar á síðustu árum af því að annast rekstur grunnskóla og hvernig þær tekjur sem fylgdu verkefninu duga fyrir útgjöldum.

„Skólastarfið í Ísafjarðarbæ er metnaðarfullt og sem betur fer eru skólarnir okkar vel mannaðir. Rekstur grunnskóla er nærþjónusta sem á að vera á hendi sveitarfélaga og því var það skynsamlegt að flytja verkefnið frá ríkinu á sínum tíma. Hvort að fjármagnið frá ríkinu hafi verið nægjanlegt má sjálfsagt deila um en ekki verður annað sagt en að skólastarfið hafið þróast umtalsvert eftir yfirfærsluna á sínum tíma og margt verið gert til eflingar á skólastarfinu.“

Um fjárhagsstöðuna segir Birgir:

„Helsta áskorun í rekstri Ísafjarðarbæjar er að gera rekstur A hluta sjálfbæran þ.e. að skatttekjur standi undir rekstrarkostnaði A hluta stofnana. Rekstur A hlutans er ekki sjálfbær og verkefni okkar er að finna leiðir til að sníða útgjöldin inn í þann stakk sem tekjurnar marka okkur. Fræðslumálin eru langstærsti útgjaldaliðurinn og fer yfir 50% af tekjum í þann málaflokk. Það hlutfall er á pari við það sem gengur og gerist í öðrum sambærilegum sveitarfélögum.“

Kjarasamningarnir setja útgjöldin úr skorðum

„Það sem setur útgjöldin í A hlutanum úr skorðum á þessu ári og því næsta eru atriði sem varða kjaramál. Þannig eru t.d. launahækkanir umtalsverðar og engar nýjar tekjur að koma til að mæta því auk þess er það heilmikil áskorun að mæta vinnutímastyttingu, lengingu orlofs og fjölgun undirbúningstíma í skólakerfinu. M.ö.o. þá er engin innistæða fyrir þeim launhækkunum sem eiga sér stað samfara kjarasamningum. Það er því ljóst að rýna þarf í alla þætti í starfsemi sveitarfélagsins og leita leiða til hagræðingar.“

 

„Það er samt ekki ástæða til að detta í eitthvert þunglyndi yfir þessu, þetta er staðan og nú er það verkefni okkar allra að leita leiða til lausnar“ segir Birgir að lokum.