Íbúaþróun í sveitarfélögum

Sveitarfélög á Íslandi voru alls 72 hinn 1. janúar 2020 sem er óbreyttur fjöldi frá árinu áður.

Sveitarfélögin eru misfjölmenn Reykjavík var fjölmennast með 131.136 íbúa en Árneshreppur á Ströndum fámennast með 43 íbúa. Alls höfðu 39 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa en í aðeins tíu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Árið 2019 fækkaði íbúum í 14 af 72 sveitarfélögum landsins og fækkaði íbúum hlutfallslega mest í Dalabyggð.
Af 25 minnstu sveitarfélögunum fjölgaði fólki í tuttugu þeirra. Af tíu stærstu sveitarfélögum með 5.000 íbúa eða fleiri fjölgaði
hlutfallslega mest í Mosfellsbæ, Garðabæ og Kópavogsbæ, en fjölgun var undir landsmeðaltali í Fjarðabyggð, Akureyrarbæ, Hafnarfjarðarkaupsstað, Akraneskaupstað og í Reykjavíkurborg.

Þegar litið er til íbúaþróunar síðustu fimm ára var mesta árlega fjölgunin í Mýrdalshreppi (8,4%) og Skaftárhreppi (6,4%).

Reykjavík hefur aftur á móti bætt við sig flestum íbúum frá 1. janúar 2015 til dagsins í dag eða 9.314.

Almennt má segja að mesta hlutfallslega fjölgunin hafi átt sér stað í sveitarfélögum á Suðurlandi og í sveitarfélögum sem eru í nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
Undantekning frá þeirri reglu er Skútustaðahreppur með 5,1% árlega fólksfjölgun, Helgafellssveit (3,8%) Svalbarðsstrandarhreppur (3,1%) og Norðurþing (2,1%).

Almennt má segja að mesta fækkunin hafi átt sér stað í sveitarfélögum á norðanverðu landinu. Mesta hlutfallslega fækkunin síðustu fimm ár átti sér stað í sveitarfélögum með íbúafjölda undir 1.000. Aðeins í fjórum af 20 fámennustu sveitarfélögunum var árleg fjölgun yfir landsmeðaltali á tímabilinu en það var í Helgafellssveit (3,8%), Ásahreppi (3,0%), Fljótsdalshreppi (2,8%) og Kjósahreppi (2,6%).

Af fjölmennari sveitarfélögum fækkaði mest í Fjallabyggð (-0,3%) og Snæfellsbæ (-0,1%)