Fúsk í flugútboði

Vestfirðingar hafa í áranna rás treyst mjög á flugsamgöngur. Ástæðurnar eru fyrst og fremst hinar krefjandi náttúrufarslegu aðstæður í faðmi fjalla blárra. Þar getur náttúran verið hörð í horn að taka. Oft eru veður erfið og stríð, samgöngur stopular að vetrarlagi, vegalengdir miklar, strjálbýli og talsverð einangrun.

Eins og við þekkjum hafa Vestfirðingar verið afar heppnir með þjónustuaðila í hálfa öld. Sama flugfélag hefur þjónað kjálkanum og ferjað fólk og frakt á milli staða og raunar um landið allt, sinnt sjúkraflugi og bráðaþjónustu innanlands og utan.

Þess vegna er ekki að undra að búum, sveitastjórnarfólki og fulltrúum fyrirtækja hafi brugðið í brún á dögunum þegar kvisaðist út að búið væri að bjóða út flugþjónustu við íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum og að Gjögri og nýr aðili myndi mæta til leiks innan fárra daga.

Vegagerðin annast útboð fyrir hönd ríkisins á styrktu flugi á nokkra staði landsins. Viðbrögð stofnunarinnar voru einfaldlega á þá leið að svona væri lífið; lægsta boð skyldi gilda, ekki væri svigrúm í skilgreindum útboðsskilmálum til þess að taka tillit til annarra þátta.

Þrír flugrekstraraðilar buðu í tilgreindar flugleiðir. Þegar upp var staðið komust Ríkiskaup, sem annaðist úrvinnslu tilboða, að þeirri niðurstöðu að enginn bjóðendanna uppfyllti í raun skilyrði útboðsins, ýmist af fjárhagslegum ástæðum eða að búnaður reyndist ekki í samræmi við þær kröfur sem settar voru í útboðinu.

Á því stigi hefði verið eðlilegast að staldra við, endurskoða forsendur, meta að nýju útboðskröfur og bjóða út að nýju. Vegagerðin taldi hins vegar að tímaramminn væri orðinn mjög naumur, samevrópskar skyldur væru á þann veg að ekki væri hægt að veita þjónustuna lengur á skammtíma undanþágum.

Vegagerðin kallaði til sín verkefnið sem var í höndum Ríkiskaupa. Byrjað var að hnoðast með forsendur og skilyrði sem endaði með því að kærunefnd útboðsmála sagði: Nei, svona gerum við ekki og lýsti því yfir í skriflegu áliti sínu að Vegagerðin hefði brotið lög í vali sínu á lægstbjóðanda, átelur vinnubrögð og staðhæfir að mistök hafi verið gerð.

Nokkuð virðist misvísandi hversu miklu munar á niðurstöðum tilboða, allt frá 20 milljónum á ári að 185 milljónum, allt eftir hver segir frá og hvaða forsendur eru lagðar til grundvallar.  Þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir með óyggjandi hætti.

Íbúarnir vita ekkert hvaðan á þá stendur veðrið. Ekkert annað en að þeir sjá nú að öllu óbreyttu á bak þrautreyndum þjónustuaðila sem gjörþekkir aðstæður og býr yfir flugflota sem er raunar sérbúinn og valinn fyrir vestfirskar aðstæður.

Það er ekkert skrýtið að kurr sé á meðal almennings á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúar telja þjónustuna í uppnámi, atvinnulífið er uggandi vegna þeirrar mikilvægu þjónustu sem veitt hefur verið varðandi aðföng, t.d. með varahluti og frakt.  Sannfæring íbúanna um öryggi, samfellu og staðkunnáttu er ekki fyrir hendi með þeirri kúvendingu sem fyrirhuguð er.

Krafist er samráðs og upplýsingamiðlunar um þessa mikilvæga þjónustu sem veitt hefur verið í mikilli sátt, af þekkingu og fagmennsku í ríflega 50 ár.

Sú spurning er áleitin hvort ríkisstjórnin og ráðherra samgöngu- og byggðamála muni una vinnubrögðum sem komið hafa í ljós í þessu máli, hvort ráðherra muni skrifa upp á þvílíkt fúsk í opinberu útboði sem hér hefur vitnast.

Guðjón Brjánsson, alþm.

DEILA