Flugfélagi Erni ýtt út úr áætlunarfluginu

Vegagerðin hefur skrifað undir samning við flugfélagið Norlandair á Akureyri um áætlunarflug til Gjögurs og Bíldudals.  Hefur félagið áætlunarflug  þegar þann 16. nóvember næstkomandi.  Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ernis segist ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið og segir að flugfélagið verði í lausu lofti ef þetta verður niðurstaðan og mikið högg.

Áætlunarflugið var boðið út og Flugfélagið Ernir var eina félagið sem stóðst kröfur sem settar voru. Flugvélafloti Norlandair mun ekki vera búinn flugvél með jafnþýstibúnaði og getur ekki tekið a.m.k. 15 farþega. Aðrir bjóðendur voru Norlandair og Flugfélag Austurlands. Ríkiskaup, sem sá um útboðið fyrir hönd Vegagerðarinnar, tók tilboði Norlandair. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar útboðsmála og er þar enn til afgreiðslu. Vegagerðin afturkallaði valið og tilkynnti síðar um nýtt val og aftur var Norlandair valið til þess að fá áætlunarleiðirnar á vesturhluta landsins. Sú ákvörðun var einnig kærð til kærunefndar útboðsmála. Bæði málin eru óafgreidd.

Málið var samkvæmt heimildum Bæjarins besta tekið fyrir í samgöngunefnd Alþingis í síðusu viku og var forstjóri Vegagerðarinnar, Bergþóra Þorkelsdóttir, kölluð fyrir nefndina.

Nefndarmenn sendu Vegagerðinni bréf eftir fundinn með 23 spurningum sem óskað var svara við auk þess sem óskað var eftir gögnum um málið.

Fyrir liggur að Vegagerðin hefur viðurkennt að Ríkiskaup hafi gert mistök við mat tilboða. Eins hefur komið fram hjá kærunefnd útboðsmála að Vegagerð/Ríkiskaup hafa brotið lög um opinber útboð við val á tilboði Norlandair, sbr. ákvörðun kærunefndarinnar frá 30. október sl.

 

 

 

DEILA