Fjárlög 2021: Reykjavíkurborg vill 102 milljarða króna

Reykjavíkurborg telur að hún hafi verið hlunnfarin um 102 milljarða króna í fjárhagslegum samskiptum sínum við ríkið á síðustu árum. Þetta kemur fram í umsögn borgarinnar um fjárlagfrumvarpið fyrir næsta ár, sem send var Alþingi í síðasta mánuði.

Kröfur borgarinnar eru í nokkrum liðum.

Covid19 kostar 22,7 milljarða króna

Í fyrsta lagi eru tekin saman áhrifin af covid19 á fjárhag borgarinnar.  Telur Reykjavíkurborg að ríkið eigi að leggja fram samtals 22,7 milljarða króna vegna þessa árs og hins næsta vegna tekjufalls og útgjaldaauka sem sveitarfélagið verður fyrir.

Í öðru lagi segir í umsögninni að á síðustu árum mikill halli hafi verið á verkefnum sem færð hafa verið frá ríki til sveitarfélaga.

Grunnskólinn 64 milljarða króna halli

Halli borgarinnar af rekstri grunnskólanna, sem færður var til sveitarfélaga 1996, er sagður verð samtals 64 milljarðar króna á síðustu fimm árum 2015-2019. Samkvæmt töflu sem fylgir með umsögninni telur borgin að aðeins um 50% af kostnaðinum sé fjármagnaður.

Tafl úr umsögn Reykjavíkurborgar sem sýnir kostnaðinn við rekstur grunnskólanna og fjármögnun sem borgin segir að ríkið hafi lagt til verkefnisins.

Málefni fatlaðra 13,3 milljarðar króna

Annað yfirfærsluverkefni er þjónusta við fatlaða. Þar segir í umsögn borgarinnar  að á árunum 2011-2019 séu útgjöldin 13,3 milljarðar króna umfram tekjur og að hallinn fari vaxandi.

Hjúkrunarheimili 2,2 milljarðar króna

Þá rekur Reykjavíkurborg hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði og veitir þjónustu í Seljahlíð á grunni daggjalda. Hallareksturinn 2011-2019 nam 2.237 milljónum króna segir í umsögninni og eigi rætur að rekja til þess að ríkið greiddi ekki hluta af stofnkostnaði en miðar daggjöldin við að ríkið hafi greitt 85% stofnkostnaðar.

Samtals nemur krafa borgarinnar á ríkið 102,3 milljörðum króna í þessari yfirgripsmiklu umsögn um fjárlagafrumvarp næsta árs.

Þessu til viðbótar hefur Reykjavíkurborg krafist þess að ríkið greiði borginni 8,7 milljarða króna vegna meintra vangoldinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Samkvæmt frumvarpinu eru heildartekjur ríkissjóða á næsta ári áætlaðar 772 milljarðar króna, þar af skilar tekjuskattur einstaklinga og staðgreiðsla 180 milljörðum króna.

DEILA