Eldislax fóðraður á timbri

Ljósm. Móna Lea Óttarsdóttir

Við eldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík er nú unnið að tilraunaverkefni fyrir Matís, þar sem lax er alinn á fóðri sem upprunnið er úr timbri.

Frá þessu er greint á vef Hafrannsóknarstofnunar.

Verkefnið er hluti af Evrópuverkefninu Sylfeed sem er alþjóðlegt fjögurra ára verkefni sem snýst um að búa til prótein úr aukaafurðum frá skógariðnaði. Auk Matís taka alls 10 stofnanir og fyrirtæki þátt í samstarfinu, þar á meðal fyrirtækin Arbiom, Norske Skog Golbey (í Frakklandi) og Fóðurverksmiðjan Laxá.

„Að sjálfsögðu er ekki mikið prótein í timbri sem fiskar gætu melt en verið er að þróa aðferð þar sem aukaafurðum, svo sem sagi úr vinnslu lauftrjáa, er umbreytt í fásykrur sem ákveðin gerð gersveppa getur nýtt sér og myndar úr þeim svokallað einfrumuprótein (e. Single cell protein). Þetta einfrumuprótein hefur hagstæða amínósýrusamsetningu sem jafnast á við fiskimjöl,“ segir Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis og fiskiræktunar hjá Hafrannsóknastofnun.

Hafrannsóknastofnun vinnur nú að fóðurtilraunum á stórum skala þar sem eldislax er alinn á þessu fóðri og mælingar gerðar á vexti og fóðurnýtingu.

Dýraprótein er takmörkuð auðlind

En af hverju  verið að skoða þetta?

„Til að ala fisk, og reynar fleiri dýr svo sem kjúkling og svín, þarf próteinríkt fóður. Stór hluti fóðurs í dag er úr jurtapróteini, gjarnan sojamjöli. Lax getur þó ekki verið jurtaæta eingöngu og verður að fá hluta próteins úr dýraríkinu og þá er notað fiskimjöl. Fiskimjöl er unnið með bræðslu uppsjávarfiska sem er takmörkuð auðlind og uppsjávarfiskar fara í auknu mæli beint til manneldis. Mjölið sem framleitt er í þessu verkefni getur uppfyllt vaxandi þörf fyrir dýraprótein til fiskeldis og annarrar matvælaframleiðslu,“ segir Ragnar og bætir við að samkeppni um prótein í heiminum fari ört vaxandi.

Í Evrópu eru möguleikar að framleiða mjög mikið magn af einfrumupróteini með þessum aðferðum og stuðla þannig að auknu matvælaöryggi álfunnar.

DEILA