Daníel: mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur sé þar sem hann er

„Þessi afgreiðsla þýðir fyrst og fremst það að við ætlum ekki að senda inn umsögn um þetta frumvarp. Ekki var rætt efnislega um frumvarpið sem slíkt.“ segir Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar aðspurður að því hvers vegna ekkert var bókað um þingmál um Reykjavíkurflugvöll á fundi bæjarráðs.

„Afstaða Ísafjarðarbæjar er alveg skýr, okkur finnst afar mikilvægt að flugvöllurinn sé þar sem að hann er, nálægt stjórnsýslu, sjúkrahúsi og stærstu háskólum.“ er svarið við spurningunni um það hver afstaða Ísafjarðarbæjar er til framtíðar Reykjavíkurflugvallar.

Höfuðborginni fylgja skyldur

„Að mínu mati fylgja því skyldur að vera höfuðborg, ekki bara þeir kostir sem fylja mikilli atvinnusköpun ríkisstofnanna í borginni og húsnæði sem þeim fylgir. Höfuðborg þarf líka að axla þá ábyrgð að aðrir landsmenn hafi greiðan aðgang að umærddri þjónustu. Sé Reykjavíkurborg ekki tilbúin til þess að axla þá ábyrgð og vilji sjá innanlandsflug flutt til Keflavíkur má spyrja sig hvort að því fylgi þá ekki ákvörðun um að flytja ákveðnar stofnanir s.s. landssjúkrahús, ráðuneyti og Alþingi úr borginni og að flugvellinum.

Það er líka ástæða til að gagnrýna þá linkind sem að stjórnvöld hafa sýnt borgarstjóra í þessu máli, hann hefur nánast upp á sitt einsdæmi og gegn vilja borgarbúa þrengt svo að vellinum að starfsemi hans verður sjálfhætt sé ekki brugðist við.

Skipulagsvaldið er hjá borginni

Það breytir því hinsvegar ekki að skipulagsvaldið er hjá borginni og þar af leiðandi er ég persónulega ekki fylgjandi umræddri þjóðatkvæðagreiðslu.“

DEILA