Dagur íslenskrar tónlistar er 1. desember

Dagur íslenskrar tónlistar 2020 verður haldinn hátíðlegur þriðjudaginn 1. desember næstkomandi.

Deginum verður fagnað á margvíslegan máta, vonandi af allri þjóðinni sem hvött er til þess að syngja saman – þó ekki í hópum heldur hver með sínu nefi. Útvarpsstöðvar setja íslenska tónlist í forgrunn og tónmenntakennarar landsins hafa æft með börnunum síðustu vikur og ætla þau að syngja saman þennan dag.

Klukkan 13:00 hefst svo lítil dagskrá þar sem velunnurum íslenskrar tónlistar verða veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi umfjöllun og stuðning við íslenska tónlist og loks verða fluttar þrjár íslenskar dægurperlur sem verða í forgrunni þennan dag.

Engir gestir verða viðstaddir viðburðinn en honum verður sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV, streymt á Ruv.is og hefst útsending kl. 13.

Söngperlurnar þrjár sem verða í forgrunni í ár eru Esjan Bríetar, Tunglið, tunglið taktu mig sem Diddú og Ljósin í bænum gerðu vinsælt árið 1978 og Lítill fugl Sigfúsar Halldórssonar.

Nýráðinn framkvæmdastjóri Dags íslenskrar tónlistar og Íslensku tónlistarverðlaunanna er Kristján Freyr en hann hefur meðal annars stýrt tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður frá árinu 2016 þar til nú í haust þegar Mugison tók við keflinu.