Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé til þes að mæta skerðingum sem landsbyggðin verður fyrir vegna minni umsvifa ríkisins þar. Þess vegna sé það galið að Reykjavíkurborg eigi tilkall til greiðslu úr sjóðnum.
Bragi var spurður að því hvað hann segði um kröfur borgarinnar um 8,7 milljarða króna greiðslu úr sjóðnum.
„Jöfnunarsjóður var ekki settur á fót til þess að halda uppi þjónustu í Reykjavík eða til þess að létta undir rekstur Reykjavíkurborgar sem sveitarfélags.
Það vita allir sem vilja vita um tilurð sjóðsins og tilgang, að hann var settur á fót til þess að mæta þeim skerðingum sem landsbyggðin einkum bjó við vegna brotthvarfs umsvifa ríkisins og töpuð aðstöðugjöld vegna þess.
Ríkið rekur í dag nánast enga starfsemi úti á landi og það eru teljandi á fingrum annarrar handar þau ríkisfyrirtæki sem við finnum t.a.m. á Ísafirði, ef nokkur eru. Jöfnunarsjóði var ætlað að bæta upp m.a. umsvif vegna fasteigna sem drógust saman á landsbyggðinni, þ.e. minnkun eins helsta tekjustofns sveitarfélaga sem eru fasteignagjöld, en jafnframt vegna þess misvægis sem er í virði eigna eftir því sem lengra dregur frá höfuðborgarsvæðinu.
Jöfnunarsjóði var einnig ætlað að bæta upp fjarlægð við miðlæga þjónustu, einkum ríkisins, sem er að finna alla á höfuðborgarsvæðinu, enda er að finna í reikninreglum Jöfnunarsjóðs bæði breytur vegna fjarlægðar frá höfuðborginni, fjarlægð innan sveitarfélags og fleira slíkt sem undirstrikar það hversu galið það er að Reykjavíkurborg eigi tilkall í greiðslur úr sjóðnum.
Röksemdir á borð við það að greiðslur vegna barna af erlendum uppruna í skólakerfi komi til allsstaðar annarsstaðar en hjá Reykjavíkurborg eru merki um rökþrotin, enda er það jafnan aumast þegar börnum er tjaldað í slíka umræðu, hvað þá börnum sem almennt standa hallari fæti í forgjöfinni.
Á höfuðborgarsvæðinu er að finna alla þá þjónustu almennt sem í boði er fyrir þá þjónstu sem almennt er veitt af hendi ríkis og borgar og þar situr Reykjavík í öndvegi og nánast ein að. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu halda ekki um jafn marga anga ríkisins og raun ber vitni með Reykjavík. Þetta segir sig sjálft.
Það var vitað mál að Reykjavíkurborg með fulltingi stærri sveitarfélaga, einkum í sínu næsta nágrenni myndu fara í vegferð gegn Jöfnunarsjóði, enda, eins og ég hef oft bent á, er það eitt meginmarkmiða með að setja lágmarkstölu á fjölda íbúa sveitarfélaga og fækka um leið á jötunni. Það er bara eitt skrefið í þessu og ekki skrýtið þó þessi aðför hafi flogið í gegn á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. En líkast til mun ætlunarverkið takast á einn eða annan hátt, enda liggur fyrir að Sigurður Ingi ætlar sér að ná sínu fram varðandi fækkun sveitarfélaga undir þeim merkjum að efla þau. Það kaldhæðnislega er að það virðist vera að beiðni einkum þeirra sem þar fara nú fram gegn sjóðnum. En ráðherra virðist samt blöskra þessi krafa og lái honum hver sem vill.“