Bolungavík: úthlutað lóðum undir 10 íbúðir

Umhverfismálaráð Bolungavíkurkaupstaðar hefur samþykkt að  úthluta Nýjatún ehf lóðunum Þjóðólfsvegur 11 og 13 undir tvö raðhús með samtals 10 íbúðum.

Úthlutunin er gerð með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar hjá húseigendum að Þjóðólfsvegi 9, Hjallastræti 41, Hjallastræti 38 og Holtabrún 21, sé lokið áður en formleg
úthlutun fer fram. Þar sem lóðin við Þjóðólfsveg 13 fer að hluta út fyrir  skilgreint íbúðarsvæði í aðalskipulagi er úthlutun hennar frestað þar til breytingar hafa
verið gerðar á aðalskipulaginu.

Stofnun og úthlutun þessara lóða verður ekki fyrr en grendarkynningu hefur verið lokið en hún fer af stað í lok vikunnar segir Finnbogi Bjarnason, byggingarfulltrúi.