Fram kemur í svari Kristjáns þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland alþm og formanns Flokks fólksins, sem útbýtt hefur verið á Alþingi, að Bandaríkjamenn hafi fresta um eitt ár að grípa til aðgerða gegn innflutningi sjávarafurða þar sem um meðafla er að ræða við veiðarnar umfram þær kröfur sem gerðar eru. Taka aðgerðir samkvæmt þeim gildi 1. janúar 2023, eða ári síðar en upphaflega hafði verið boðað.
Gæti orðið innflutningsbann á grásleppuhrognum til Bandaríkjanna
Viðbúið er að sjávarafurðir úr veiðum þar sem meðafli er yfir mörkum þeim sem Bandaríkin reikna fyrir einstaka stofna sjávarspendýra fái ekki innflutningsleyfi á markað þar í landi eftir að reglurnar taka gildi. Fram kemur í svari ráðherra að þegar hafi verið gripið til þess að banna beinar veiðar á sel vegna ákvarðana Bandaríkjamanna. „Samkvæmt áætluðum tölum Hafrannsóknastofnunar um meðafla sjávarspendýra íslenska fiskiskipaflotans eru aðeins landselur og útselur yfir meðaflamarki samkvæmt reglum Bandaríkjanna. Þessar selategundir koma sem meðafli við veiðar í botnvörpu og net, þ.m.t. þorskanet og grásleppunet. Mestur hluti meðaflans kemur í grásleppunet.“ segir í svarinu.
Af þessum söjum hafi verið í reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2020 gerð sú breyting frá eldri reglum að 14 veiðisvæðum, frá Faxaflóa til Skagafjarðar, var lokað fyrir veiðum til að draga úr líkum á meðafla sjávarspendýra.
Að lokum segir ráðherra að verði „sótt um leyfi til innflutnings á grásleppuafurðum til Bandaríkjanna eru einhverjar líkur á að afurðir úr öllum veiðum sem samanlagt fara yfir meðaflamark lendi í sömu takmörkunum, þ.e. allar veiðar þar sem land- eða útselur kemur í veiðarfæri. Ekki liggur þó fyrir endanleg afgreiðsla bandarískra yfirvalda á því hvernig verður farið með afurðir úr mismunandi veiðum frá einstökum löndum.“