Bæjarins besta 36 ára í dag

Starfsfólk Bæjarins besta 2009. F.v. Birgir Örn Sigurjónsson, Halldór Sveinbjörnsson, Helga Einarsdóttir, Sigurjón J. Sigurðsson, Thelma Hjaltadóttir og Friðrika Benónýsdóttir.

Þann 14. nóvember 1984 hóf Bæjarins besta á Ísafirði göngu sína. Það var um margra ára skeið gefið út sem vikublað og fyrst selt og svo dreift um alla Vestfirði. Vefurinn bb.is bættist svo við árið 2000, aldamótaárið fyrra. Blaðið hætti að koma út fyrir þremur árum en vefurinn er rekinn af fullum krafti og flytur daglega vestfirskar fréttir.

Stofnendur voru Ísfirðingarnir Sigurjón J. Sigurðsson og Halldór Sveinbjörnsson og ráku þeir fyrirtækið ásamt prentsniðju af  miklum dugnaði í 31 ár.  Það er mikið afrek af þeirra hálfu, sem fáir hafa leikið eftir, að vera stöðugt á fréttavaktinni í rúma þrjá áratugi.

Fyrst var starfsemin til húsa í Suðurtanga en fluttist fljótlega innar á eyrina. Þeir ráku fyrirtækið til 2015 en þá keypti Bryndís Sigurðardóttir það. Fyrir þremur árum keypti svo bb útgáfufélag á Ísafirði reksturinn og rak það þar til í október 2018 að núverandi eigandi tók við því.

Fyrst í stað kom blaðið út hálfsmánaðarlega en 47 tölublöð komu út 1985. Síðan voru 50-53 tölublöð í hverjum árgangi þar til dró úr útgáfunni af fjárhagsástæðum fyrir tveimur árum.  Metútgáfuárið var 1987 en þá kom blaðið út tvisvar í viku um ellefu vikna skeið og alls urðu tölublöðin þá 62.

Breytingar hafa orðið gríðarlegar í fjölmiðlun á þessum tíma. Einkum eru það tækniframfarir sem hafa valdið straumhvörfum. Leiðin til þess að svara eftirspurninni eftir staðbundnum fréttum er önnur en var 1984 og nú er það netið sem hefur yfirburði yfir prentað efni. Rafrænar fréttir hafa þann kost að þær er hægt að birta hvenær sem er   og þær er unnt að skoða og fylgjast með í tölvunni og í símanum nánast hver sem er.

Frumkvöðlarnir Sigurjón og Halldór áttuðu sig á tækniþróuninni og voru fljótir að taka upp nýjungar og það er skýringin á því hvað vefurinn Bæjarins besta, bb.is er öflugur á landsvísu. Aðsóknin að vefnum er með því mesta sem gerist utan höfuðborgarsvæðisins  og margir fylgjast með úr fjarlægð með gangi mála á Vestfjörðum.

Bæjarins besta sendir frumkvöðlunum og þeim sem síðar komu og starfsfólki þeirra í gegnum tíðina  afmælisóskir og setur fram þá frómu ósk að vefurinn, og ef til vill síðar blaðið, verði Vestfirðingum til gagns og gamans á komandi árum.

-k

 

DEILA