Alþingi: Lagt til að heimila veiðar á álft

Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Þórunn Egilsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitíma.

Leggja þær til að veiðar á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja verði leyfðar  á kornökrum og túnum frá 15. mars til 15. júní og að veiðar á álft verði auk þess leyfðar  á kornökrum frá 1. maí til 1. október.

Í greinargerð segir að álftir, grágæsir, heiðagæsir og helsingjar valdi miklu tjóni á túnum og kornökrum og að  Þörf sé á að finna leiðir fyrir bændur til þess að stemma stigu við ágangi álfta og gæsa.

Þá segir : „Álftir og gæsir sækja frekar í tún sem eru í góðri rækt en lélegri. Þær eiga auðvelt með að greina fóðurgildi gróðurs og velja sér bithaga eftir því. Álftir þurfa að éta um 300 gr. á dag af þurrefni.“

Álftin hefur verið friðuð á Íslandi frá árinu 1913 en álftarstofninn hefur stækkað verulega. Um 1960 var stofninn um 3–5 þúsund fuglar en í dag er talið að stofninn sé um 34.000 fuglar. Aðrir fuglastofnar sem nefndir eru í tilllögunni hafa einnig stækkað mikið samkvæmt því sem fram kemur í greinargerðinni.  Stofnstærð grágæsa er í kringum um 100.000 fuglar og heiðargæsa um 500.000 fuglar.

Ágangur álfta og gæsa veldur bændum fjárhagslegu tjóni  og er það ástæða tillöguflutningsins. Telja flutningsmenn nauðsynlegt að minnka tjón bænda.

Fuglavernd hefur sent frá sér fréttatilkynningu og mótmælir tillöguflutningnum. Segir þar að álft er alfriðuð tegund og að veiðitímabil grágæsar og heiðagæsar er nú þegar lengra en gott þykir.

Helsta gagnrýnin snýr að því að farið sé fram á að veiða þessar tegundir þegar þær eru
að snúa til baka frá vetrarstöðvum og á varptíma. Fuglavernd telur slíkt algjörlega óverjandi á siðferðilegum forsendum auk þess sem það stríðir gegn fjölþjóðlegum lögum sem gilda víðast hvar á vetrarstöðvum þessara fuglategunda.
Telur Fuglavernd að nær væri að finna leiðir til að fæla fugla frá svæðum.