Viðgerðir í Selárdal

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á listasafni og kirkju Samúels á þessu ári. Smíði nýrra glugga í bæði húsin hófst hjá TV-verk í Tálknafirði í lok febrúar. Ríkiseignir og Uppbyggingarsjóður Vestfjarða veittu framlag til verksins. Voru nýir gluggar settir í listasafnið og kirkjuna í sumar. TV-verk gerðu einnig við kirkjuturninn sem var orðinn mjög illa farinn.

Fengin var ráðgjöf í að þétta veggi til að komast fyrir rakasöfnun og tryggja loftun. Niðurstaðan var að einangra og klæða loftið í listasafninu og setja kyndingu í bæði listasafnið og kirkjuna með varmadælum. Guðbjartur Egilsson á Patreksfirði og Karl Þór Þórisson á Bíldudal sáu um tengja rafmagn í kirkjuna og setja upp varmadælur. Þar með stefnir í að bæði kirkjan og listasafnið verði þurrari og hlýrri og hægt að stefna að markvissari notkun þeirra 2021.

Bæði húsin munu þá hýsa sýningar og upplýsingar um líf og list Samúels auk gestasýninga. Fleiri gestir geta notið sýninga á sama tíma og skipst á að vera í kirkju, listasafni, í höggmyndagarðinum og í kaffihúsinu í Brautarholti, sem nýkomið er í gagnið.

Félag um endurreisn listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal var stofnað þann 4. apríl 1998. Tilgangur félagsins er að stuðla að endurreisn og viðhaldi á listaverkum og byggingum Samúels Jónssonar (1884-1969) í Selárdal við Arnarfjörð og kynna verk Samúels innan lands sem utan. Félagið hóf viðgerðir á listaverkum Samúels árið 2004 í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið.

Formaður félagsins er Kári Schram og gjaldkerfi er  Ólafur Jóhann Engilbertsson frá Tyrðilmýri við Ísafjarðardjúp. Hann tók saman greinargerðina um endurbætur sumarsins í Selárdal. Myndir: Ólafur Jóhann Engilbertsson.

Loftið i listasafninu.
Kirkjuturninn var illa farinn.
Kirkjuturninn.
Nýir gluggar á listasafninu.