30% grunnskólanemenda fá stuðning

Skólaárið 2018-2019 fengu 13.662 grunnskólanemendur sérkennslu eða stuðning, 29,8% allra nemenda. Alls fengu 35% drengja og rúm 24% stúlkna stuðning. Þetta kemur fram í nýbirtu talnaefni Hagstofu Íslands.

Fjöldinn sem fær stuðning hefur aukist verulega frá skólaárinu 2004-2005. Þá fengu 23,7% nemenda stuðning eða 10.562 nemendur. Skipting milli kynja var þannig að 6.578 drengir fengu stuðning og 3.984 stúlkur. Það voru 28,7% drengja og 18,5% stúlkna.

Á umræddu 14 ára tímabili hækkaði stuðningshlutfallið um 6% af heildarfjölda nemenda og um nærri 30% fleiri nemendur fengu stuðning.

Tölurnar eru ekki greindar eftir landsvæðum.

Fjórtán földun erlendra nemenda

Önnur afar athyglisvert staðreynd sem fram kemur í tölum Hagstofunnar er hve mjög eim nemendum hefur fjölgað í grunnskólum landsins sem eiga erlent móðurmál.

Árið 1997 voru það 377 nemendur á landinu öllu sem féllu undir þessa skilgreiningu.  Í fyrra, 2019, voru þeir 5.393. Fjöldinn hefur fjórtánfaldast á 22 árum og þar af tvöfaldast á síðustu 7 árum. Þessar tölur eru ekki heldur greindar eftir landssvæðum en hátt hlutfall íbúa á Vestfjörðum er með erlent ríkisfang miðað við önnur landsvæði.

DEILA