Vesturbyggð: álykta til stuðnings sauðfjárrækt

Brjánslækur á Barðaströnd

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi málefni sauðfjárræktar á síðasta fundi sínum.  Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri lagði fyrir bæjarstjórn minnisblað og vakti athygli á bókunum sveitarstjórna í nágrenni Vesturbyggðar vegna stöðu sauðfjárbænda og lágu afurðaverði til sauðfjárbænda.

Samþykkt var ályktun frá Hafna- og atvinnumálaráði sveitarfélagsins þar sem segir að skapa þurfi stöðugleika í afkomu í sauðfjárrækt og styðja við innlenda matvælaframleiðslu.

Ályktunin í heild:

„Í Vesturbyggð er sauðfé haldið á 22 búum, lágt afurðaverð til sauðfjárbænda hefur því gríðarleg áhrif á bændur í Vesturbyggð sem og sá mikli ófyrirsjáanleiki sem bændur búa við á hverju hausti.

Hafna- og atvinnumálaráð tekur undir bókun byggðarráðs Húnaþings vestra, sveitastjórnar Dalabyggðar, Strandabyggðar og Reykhólahrepps og skorar á afurðastöðvar að gefa út afurðaverð 2021 fyrir komandi áramót en líkt og í öðrum rekstri er mikilvægt að sauðfjárbændur fái viðunandi verð fyrir sína vöru og hafi þannig forsendur til áætlanagerðar og ákvarðanatöku.

Samkvæmt samantekt Landssamtaka sauðfjárbænda var afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda á síðasta ári það lægsta sem finnst í Evrópu og miðað við nýbirtar verðskrár 2020 er vegið meðalverð 502 kr./kg. Hefði afurðaverð fylgt almennri verðlagsþróun frá 2014 ætti það að vera 690 kr./kg. Því vantar enn tæpar 200 kr./kg. upp á afurðastöðvaverð fylgi verðlagsþróun.“

Í heimsfaraldri vegna COVID-19 fengu Íslendingar áminningu um mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu. Skapa þarf greininni stöðugleika í rekstri til lengri tíma og styðja á öflugan hátt við innlenda matvælaframleiðslu.“

DEILA