Vesturbyggð: 70 milljón króna lækkun tekna

Áætlun jöfnunarsjóðs fyrir framlög 2020 sem birt var 1. október 2020 gerir ráð fyrir enn meiri lækkun framlaga til Vesturbyggðar en gert var ráð fyrir í júní. Samkvæmt áætluninni er gert er ráð fyrir 22% lækkun útgjaldajöfnunarframlags eða um 38,1 milljóna króna skerðingu, 15% lækkun á grunnskólaframlagi eða 17,7 milljóna króna skerðingu og 17% lækkun á fasteignaframlagi eða 14 milljóna króna skerðingu. Gerir það samtals lækkun uppá 70 milljónir króna af framlagi jöfnunarsjóðs á árinu 2020 frá upprunalegum áætlunum.

Bæjarráð Vesturbyggðar ítrekar aftur bókun sína frá 896. og 903. fundum  sínum þar sem bent er á mikilvægi framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau séu ekki skert. Sveitarfélagið reiðir sig á framlög Jöfnunarsjóðs til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum.

Í fjárhagsáætlun ársins kemur fram að tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru áætlaðar 377 milljónir króna af 1.330 milljón króna tekjum. Lækkunin nemur 19% af tekjunum frá Jöfnunarsjóðnum og veldur því að heldartekjurnar lækka um 5%.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni er niðurstaðan um 66 milljónir króna  afgang eftir rekstur. Er því tekjulækkunin meiri en sem nemur þeirri fjárhæð.