Vestri: sigur í blaki og tap í körfu

Leiktímabilið er hafið í blakinu. Um helgina lék karlalið Vetsra við Þrótt Neskaupstað í Mizuno deildinni.

Lið Þróttar var að leika sinn þriðja leik í deildinni og mætti Þróttur með óbreytt byrjunarlið frá síðasta leik þegar liðið sigraði Fylki 3-1. Lið Vestra var hinsvegar að leika sinn fyrsta leik og er liðið töluvert breytt frá síðasta tímabili.

Liðin skiptust á stigum í byrjun fyrstu hrinu en þegar fór að líða á hrinuna voru það heimamenn í Vestra sem náðu yfirhöndinni. Sóknarleikur Þróttar var ekki næginlega góður en of mikið af árangurslausum laumum sem leikmenn Vestra áttu ekki í miklum vandræðum með, en varnaleikur Vestra var góður og sóknarleikurinn eftir því. Fór svo að Vestri sigraði fyrstu hrinu 25-22.

Vestri hélt áfram góðri spilamennsku í annarri hrinu og var fjölbreyttur og sterkur sóknarleikur Vestra að valda Þrótti vandræðum. Uppspilari Vestra dreyfði spilinu vel og gerði þar hávörn Þróttar erfitt fyrir. Vestri sigraði aðra hrinu 25-20 og tryggði sér þar með að lágmarki eitt stig út úr leiknum.

Allt annað var að sjá sóknarleik Þróttar og skilaði það þeim sigri í þriðju hrinu 25-19. Eftir jafna og spennandi byrjun í fjórðu hrinu var allt púður búið hjá Þrótti Nes og gengu heimamenn á lagið og gerðu út um leikinn. Fjórðu hrinu lauk með sigri Vestra 25-21.

Vestri byrjar því tímabilið á nokkuð óvæntum en verðskulduðum sigri.

Kvennalið Vestra í 1. deild í körfunni lék í gær við Fjölni b fyrir sunnan. Fjölnir vann nokkuð örugglega 77:41 eftir að hafa haft 20 stiga forystu í leikhléi.

Frammistaða leikmanna var eftirfarandi:

Olivia Janelle Crawford 10/6 fráköst, Sara Emily Newman 9, Katla María Magdalena Sæmundsdóttir 6, Helena Haraldsdóttir 5/9 fráköst, Arna Hrönn Ámundadóttir 4, Gréta Hjaltadóttir 3/7 fráköst, Stefanía Silfá Sigurðardóttir 2, Ivana Yordanova 2, Hera Magnea Kristjánsdóttir 0/8 fráköst, Snæfríður Lilly Árnadóttir 0/4 fráköst, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir 0.

Vestri hefur nú leikið 4 leiki og sigrað í einum.