Verkvest: fundur í dag með hásetunm á Júlíusi Geirmundssyni ÍS

Verkalýðsfélag Vestfirðinga mun halda í dag fund með félagsmönnum sínum sem eru á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270. Verður um fjarfund að ræða. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélagsins sagði í samtali við Bæjarins besta að farið yrði yfir stöðuna og rætt um næstu skref.

Kalla eftir lögreglurannsókn

Í yfirlýsingu Verkalýðsfélagsins, sem send var út í gær segir að með háttsemi sinnihafi  útgerðin stefnt áhöfn og öryggi skipsins í hættu og hafi farið á svig við meginreglur siglingalaga sem ætlað er að tryggja öryggi áhafnar og skips.  „Hlýtur slíkt að koma til skoðunar hjá eftirlitsaðilum eða lögreglu.“ segir í yfirlýsingunni.

Finnbogi segir fullt tilefni til þessarar ályktunar. Það eru skýr ákvæði í siglingalögum um ábyrgð útgerðar og skipstjóra á öryggi áhafnar. Hann segir að að með marga veika menn í áhöfninni sé öryggi varla tryggt eins og bæri. þá hafi verið hunsið tilmæli frá Landlækni um hvaernig skuli bregðast við ef upp kæmi smit um borð. Þar segir að skipstjóri skuli skilyrðislaust hafa samband við Landhelgisgæsluna og þá hefjist ákveðinn ferill sem útgerðinni beri að fara eftir. „Það var allt hunsað“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson.

Aðspurður svaraði Finnbogi því til að félagsmenn Verkalýðsfélagsins hafi ekki haft samband við félagið fyrr en veiðiferðinni var lokið.