Vegur til framtíðar

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur um áratugaskeið barist fyrir heilsárssamgöngum milli suður og norðursvæðis Vestfjarða.

Sunnudagurinn 25. október markar tímamót í þeirri baráttu og segja má að ríflega hálfur sigur sé nú unninn þegar Dýrafjarðargöng opna og bygging nýs vegar um Dynjandisheiði er hafinn.
Við hefðum vissulega viljað opna báða áfanga samtímis en þurfum að bíða enn um sinn eftir veginum yfir heiðina.

Þessi stund er engu að síður stór. Hún er stór fyrir alla þá sem barist hafa fyrir bættum samgöngum á Vestfjörðum fram til þessa og hafi allt það góða fólk mikla þökk fyrir. Stundin er þó stærst fyrir framtíðina og komandi kynslóðir. Það er því táknrænt að nemendur Grunnskólans á Þingeyri fari fyrst gegnum Dýrafjarðargöng.

Fyrir tíu árum fór hópur krakka úr skólanum og byrjaði að grafa göng undir Hrafnseyrarheiði með það að markmiði að vekja athygli á því að gerð ganganna hefði ítrekað verið frestað, þau tóku því „fyrstu skóflustunguna“ að Dýrafjarðargöngum.

Eftir tíu ár verður óskiljanlegt að lokað hafi verið milli suður og norðursvæðis Vestfjarða stóran hluta ársins. Að í stað þess að skutlast milli Þingeyrar og Patró á klukkutíma hafi það tekið átta tíma á köflum á erfiðum malarvegum.

Við trúum því að opnun Dýrafjarðarganga skapi ný tækifæri, skapi sóknarfæri og færi Vestfirði nær því að verða samkeppnishæfir við aðra landshluta.

Vestfjarðaleiðin er eitt af þessum mögnuðu sóknarfærum sem skapast með opnun Dýrafjarðarganga og er þróun ferðamannaleiðarinnar í raun fyrsta verkefnið sem nýtir göngin til að gera Vestfirði að heildstæðum áfangastað. Vestfjarðaleiðin er sameiningarafl fyrir svæðið og skapar fjölmörg tækifæri fyrir ferðaþjóna, matvælaframleiðendur og þjónustufyrirtæki.

Dýrafjarðargöng opna í miðjum heimsfaraldri þannig að ekki verður hægt að fagna opnun gagnanna með hefðbundnum hætti. En við skulum fagna, við skulum eiga samfélagsmiðlana á sunnudaginn. Notum myllumerkið #Vestfjarðaleiðin eða #TheWestfjordsWay og tökum myndir sem fanga stemninguna á Vestfjarðaleiðinni næsta sunnudag.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, Vestfjarðastofu