Þrúðheimar: andmælaréttur fótum troðinn

Þrúðheimar ehf, sem hefur rekið Stúdíó Dan undanfarin ár hefur ritað Ísafjarðarbæ bréf og óskað eftir öllum gögnum sem varða þá stjórnvaldsákvörðun að styrkja líkamsræktarstöðina Ísófit á Ísafirði með samningsbundnum hætti samanber ákvörðun bæjarstjórnar þann 17. september sl.

Í bréfinu segir lögmaður fyrirtækisins að tilgangurinn sé að kanna hvort afgreiðsla málsins um styrkveitingu í samkepnisumhverfi hafi af hálfu bæjarins falið í sér réttarbrot gagnvart Þrúðheimum ehf. og þar með hugsanlegt fjártjórn.

Bent er á að mánaðarleg samningsfjárhæð og þriggja ára samningstími séu rétt undir mökum um útboðsskyldu og það beri sterkan keim af lagasniðgöngu.

Vísað er í lög um opinber innkaup sem mæla fyrir um að óheimilt sé að takmarka samkeppni með óeðlilegum hætti og segir í erindinu að komið hafi með þessum samningi í veg fyrir eðlilega samkeppni. Þá er vitnað til ummæla forseta bæjarstjórnar á umræddum bæjarstjórnarfundi þess efnis að ákveðið hafi verið að bjóða ekki út og að kostnaður væri 6 milljónir króna á ári, sem sé langt umfram mörkin fyrir útboðsskyldu.

Þá segir í bréfinu að ekki verði annað séð en að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið stórlega sniðgengin og að andmælaréttur hafi verið fótum troðinn.

Bæjarstjóri hefur svarað erindinu og afhent fjölmörg skjöl sem málið varðar , en þó ekki vinnugögn og gögn sem innihalda mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni.  Í bréfi bæjarstjóra er málið rakið út frá sjónarhól bæjarins og því hafnað að stjórnsýslulög hafi verið brotin. Því er líka mótmælt að samningsupphæð hafi verið lækkuð til þess að komast undir útboðsskyldu heldur hafi nánari upplýsingar Ísofit staðfest að samningsupphæð þyrfti ekki að vera af þeirri fjárhæð sem áður hafði verið talið.  Þá er því mótmælt að samningurinn falli undir ákvæði um útboðsskyldu þar sem um sé að ræða tímabundinn styrk til reksturs líkamsræktarstöðvar en ekki innkaup í skilningi innkaupareglna Ísafjarðarbæjar og ákvæði laga um opinber innkaup.

DEILA