Þjóðlendukröfur ríkisins: sveitarfélögin búast til varna

Sveitarfélögin við Djúp eru með kröfur ríkisins fyrir Óbyggðanefnd til athugunar og búast til varna.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að Súðavíkurhreppur muni bregðast við kröfum Óbyggðanefndar með fulltingi lögmanns eða lögfræðings.

Hann segir að kröfur óbyggðanefndar séu talsvert umfangsmiklar í sveitarfélaginu enda hreppurinn landfræðilega stór. Flestar krafna lúta að landi í yfir 600 m hæð en þó eru undantekningar frá því, m.a. í Hestfirði og Ísafirði.

„Það verður tekin afstaða til þess hverjum verður falið að svara kröfunum á næsta fundi sveitarstjórnar þann 13. nóvember 2020, en frestur er til 1. febrúar 2021.“

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir að bærinn sé búinn að ráða sér lögfræðing í þessu máli. Það er einkum krafa ríkisins um Bolafjall sem veldur áhyggjum. Jón Páll bendir á að Utanríkisráðuneytið hafi 1985 gert samning við Bolungavíkurkaupstað þar sem ríkið tekur á leigu undir ratsjárstöð land á Bolafjalli 2500 fermetrar og 6,7 hetktara opið svæði til viðbótar. Krafa ríkisins skjóti því skökku við.

Jón Páll segir að krafa ríkisins geti haft áhrif á framtíðarstefnu og sýn bæjarins vegna útsýnispallsins sem verið er að byggja á Bolafjalli. „Við erum að deiliskipuleggja svæðið og viljum tengja það við ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Við sjáum fyrir okkur að Bolafjall verði byrjun á ferðalagi ferðamanna til Vestfjarða en ekki endastöð.“ Hann segir að til standi að halda opinn fund um málið og þar sem kröfur bæjarins verði ræddar.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ sagði að málið væri í í skoðun hjá  lögmanni bæjarins og ekki liggi fyrir hver viðbrögð bæjarins verða við þessum kröfum ríkisins. En .það myndi skýrast vonandi fljótlega.