Strandabyggð kaupir húsnæði fyrir skrifstofur

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að kaupa Hafnarbraut 25 , kjallara og miðhæð af Arionbanka.

Tilgangur kaupanna er margþættur, segir í samþykktinni:

1. Bæta og einfalda aðgengi íbúa að þjónustu skrifstofu og starfsfólks Strandabyggðar.

2. Skapa laust skrifstofurými í Þróunarsetrinu, þannig að færi skapist á að sækja í t.d. störf án staðsetningar og eins að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að hefja rekstur í Strandabyggð.

3. Skapa eiginlegt stjórnsýsluhús í Strandabyggð en embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum er á efri hæð hússins.

 

Kaupverð er 29.500.000 og við það bætist kostnaður við flutning og standsetningu kr. 2.500.000. Samtals er kostnaðurinn 32 milljónir króna.

Tekið verður jafnhátt lán í Lánasjóði sveitarfélaga ohf, til þess að fjármagna kaupin. Lánið er með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034.

Til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, nánar tiltekið útsvarstekjur og framlög til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.