Sólsetur á Þingeyri: 200 m.kr. verkefni

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt samstarfssamning við Pálmar Kristmundsson um verkefnið Sólsetur á Þingeyri.

Verkefnið er komið inn í áfangastaðaáætlun fyrir Vestfirði sem Vestfjarðastofa vinnur að. Þar heitir verkefnið Sólsetrið á Þingeyri – Uppbygging og framkvæmdir við Sólsetrið sem áfangastaðar.

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs segir að sótt verði um styrk fyrir verkefnið í byggðaáætlun. Dýrafjarðargöngin hafa það í för með sér að Þingeyri verður ekki í alfaraleið og ætlunin sé að vinna gegn þeim áhrifum með því að skapa stað sem yrði aðdráttarafl fyrir þorpið.  Byggir hugmyndin á því að gera útsýnisstað sérstaklega gerðan til þess að njóta sólsetursins í Dýrafirði. Gert er ráð fyrir að ljúka framkvæmdum fyrir lok árs 2022. Kostnaður er á þessu stigi áætlaður 200 milljónir króna.