Snjóflóðasetur Flateyri: dræmar undirtektir varðandi varðskipið Ægi

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar telur ýmis tormerki á því að  að finna varðskipinu Ægi staðsetningu á Flateyri fyrir Snjóflóðasafn, en starfshópur um uppbyggingu snjóflóðasetur á Flateyri hefur sent erindi til bæjarins um það og óskað jafnframt eftir því að bærinn  gefi eftir tímabundið eða varanlega hafnargjöld og/eða annan kostnað.

Hafnarstjórn segir í  bókun sinni að það fagni áhugaverðri hugmynd en telur að hafnarpláss við bryggjuna á Flateyri sé of takmarkað til að hægt sé að koma varðskipinu fyrir þar.

Þá er höfnin enn óvarin fyrir snjóflóðum, vinna við nýtt hættumat stendur enn yfir og því ekki tímabært að taka ákvarðanir um framkvæmdir við höfnina.

Auk þess telur hafnarstjórn að ekki sé hægt að fara í framkvæmdir sem til þyrfti til að koma varðskipinu fyrir án fjárhagslegrar aðkomu annarra opinberra aðila.

Bæjarráðið ræddi málið gær og bókað er að það feli bæjarstjóra að vinna málið áfram.