SFS: HG fór ekki eftir leiðbeiningum – skipstjóri og útgerð axli ábyrgð

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja að til séu skýrar leiðbeiningar frá SFS og stéttarfélögum sjómanna um það hvernig eigi að bregðast við þeim aðstæðum sem voru upp í Júlíusi Geirmundssyni ÍS og að ekki hafi verið farið eftir þeim leiðbeiningum og að skipstjóri og útgerð verði að axla ábyrgð á því.

 

„Vegna COVID-19 smits um borð í frystiskipinu Júlíusi Geirmundssyni er rétt að taka fram að ítarlegar leiðbeiningar voru gefnar út á vordögum um hvernig bregðast skyldi við um borð í skipum ef ástæða var til að ætla að smit væri á meðal áhafnarmeðlima. Um borð í skipum er nánd mikil á milli manna og veikindi geta hæglega borist út, eins og því miður sýndi sig í þessu tilfelli. Af þeim sökum var sérstaklega mikilvægt að vera með skýrar leiðbeiningar um bestu framkvæmd í þessum aðstæðum. Leiðbeiningarnar voru samdar sameiginlega af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélögum sjómanna, í góðu samstarfi við embætti landlæknis, og sendar á útgerðir.

 

Í tilfelli Júlíusar Geirmundssonar var ekki farið eftir þessum leiðbeiningum. Samkvæmt þeim hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæsluna þegar veikinda varð vart og þar með hefði málið verið komið í réttan farveg. Á þessum misbresti verða skipstjóri og útgerð skipsins að axla ábyrgð.

 

Mikilvægt er að samskipti útgerða og sjómanna séu góð, sérstaklega þegar í hlut eiga frystiskip sem eru lengi á sjó. Þetta mál hefur skaðað þessi samskipti. SFS hyggjast ræða málið við forystumenn stéttarfélaga sjómanna á næstu dögum. Mikilvægt er að greina hvað fór úrskeiðis og læra af því. Raunir þessara skipverja á Júlíusi Geirmundssyni mega ekki endurtaka sig á íslenskum skipum.“

 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir,

framkvæmdastjóri SFS