Sexæringurinn Ölver í eigu Byggðasafns Vestfjarða, sem verið hefur í sumar til sýnis í Ósvör, var á dögunum fluttur til hafnar í Bolungavík og tekinn þar upp fyrir veturinn.
Báturinn er einn af dýrgripum Byggðasafnsins og er ómissandi þáttur í sýningunni í Ósvör. Ölver er gott dæmi um sexæring eins og þeir voru við Djúp um aldamótin 1900.
En í Ósvör hefur verið gerð upp verbúð eða öllu heldur safni sem samanstendur af tvöfaldri 19. aldar verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli. Þar eru sýndur atvinnuhættir og aðbúnaður sem voru um aldir við lýði.
Það voru kapparnir Jóhann Hannibalsson og Magnús Bjarnason sem gengu til verka af kunnáttu. Komu þeir bátnum greiðlega niður í fjöru og á flot og reru honum út fyrir þar sem Hesteyri ÍS og Haukur Vagnsson tóku Ölver í tog yfir víkina.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.