Opnað fyrir umsóknir um framlög vegna verslunar í strjálbýli

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur opnað fyrir umsóknir um framlög sem veitt eru til verslana í strjálbýli, sbr. aðgerð A.9 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Markmið með aðgerðinni er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar.
Framlögin geta nýst til að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, m.a. með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudaginn 30. nóvember 2020.

Verslunarrekendur eða þeir sem hyggja á verslunarrekstur á skilgreindum svæðum geta sótt um þau framlög sem auglýst eru. Verslanirnar þurfa að vera í a.m.k. 150 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, 75 km akstursfjarlægð frá Akureyri og 40 km akstursfjarlægð frá byggðakjörnum með yfir 1.000 íbúa, eða í Grímsey og Hrísey.
Þriggja manna valnefnd gerir tillögur til ráðherra um veitingu framlaga á grundvelli úthlutunarskilmála. Byggðastofnun annast umsýslu umsókna um framlög fyrir hönd ráðuneytisins. Við mat á umsóknum verður meðal annars stuðst við rekstraráætlun fyrir árið 2021, ársreikninga síðustu tveggja ára og fyrirhugaða starfsemi.

Framangreind úthlutun byggir á reglum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um úthlutun á framlögum sem veitt eru til verkefna á grundvelli byggðaáætlunar. Er þeim ætlað að tryggja að gætt sé jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða við úthlutun og umsýslu styrkja og framlaga úr byggðaáætlun.