Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Verulegur ávinningur

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Byggðastofnun hafa birt greinargerð um starfsemi Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins (NPA) fyrir árin 2014-2020. Tilgangurinn með greinargerðinni er að leggja mat á árangur og ávinning Íslands af þátttöku í samstarfinu en ný áætlun er í undirbúningi fyrir tímabilið 2021-2027.

Ísland hefur verið aðili að NPA áætluninni frá árinu 2002. Eitt af markmiðum með þátttöku Íslands er að efla stofnanir og fyrirtæki á landsbyggðinni í alþjóðlegu samstarfi. Aðildin er hluti af byggðastefnu stjórnvalda og skilgreind sem slík í byggðaáætlun.

Markmið áætlunarinnar er að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi og eflingu búsetuþátta og mannauðs.

Heildarframlag til NPA á tímabilinu 2014-2020 var 56,5 milljónir evra en þar af var framlag Íslands 3 milljónir evra, eða að meðaltali um 60 milljónir króna á ári.

Alls hafa 58 verkefni fengið styrk og Ísland er þátttakandi í 31 verkefni, sem langflest eru staðsett á landsbyggðinni.

Fjöldi verkefna, þátttakenda og afurðir benda til þess að ávinningur Íslands sé verulegur af þátttökunni og að íslenskir þátttakendur séu eftirsóttir samstarfsaðilar.

DEILA