Sumarið fór heldur betur langt fram úr björtustu vonum segir Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir um aðsóknina að kaffihúsinu í Litlabæ í Skötufirði. Hún segir að gestir sumarsins skipti þúsundum. Siðustu árin hafa útlendingar verið í drjúgum meirihluta gesta. Í sumar snerist þetta við vegna covid. Mun færri útlendingar komu en að sama skapi voru fleiri innlendir ferðamenn. „Íslendingar stóðu sig frábærlega í því að ferðast um Vestfirði í sumar“ segir Guðrún Fjóla. Foreldrar hennar, sem búa á Hvítanesi, hafa staðið að rekstrinum frá upphafi. Kaffihúsið var opnað eftir að endurbótum á gamla bænum lauk. Það er Þjóðminjasafnið sem hefur umsjón með húsinu og stóð að endurbótunum.
Kaffihúsið var opnað í lok maí og var opið til 20. september. Guðrún Fjóla segir að þráðurinn verði tekinn upp aftur næsta vor og þá stefnt að opnun um miðjan maí.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson