Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir ÍS 47 ehf. vegna sjókvíaeldis í Önundarfirði.
Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa af regnbogasilungi og þorski. Áður var fyrirtækið með 200 tonna rekstrarleyfi fyrir regnbogasilungi og þorski.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu segir að það sé niðurstaða Skipulagsstofnunar að aukið fiskeldi ÍS 47 ehf. á Önundarfirði sé ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Jafnframt hvetur stofnunin fyrirtækið og aðra sem að framkvæmdinni koma til að viðhafa mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið við meðferð málsins.