Hvar má veiða rjúpu ?

Rjúpnaveiðitímabil ársins hefst sunnudaginn 1. nóvember og þá er það spurningin hvar og hver má veiða.

Lögum samkvæmt ber öllum þeim sem stunda veiðar að afla sér veiðikorts og skal korthafi ætíð bera kortið á sér á veiðum og framvísa því sé þess óskað.

Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar er öllum íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum með lögheimili á Íslandi heimilar dýraveiðar í þjóðlendum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.

Aðeins er heimilt að veiða á eignarlöndum með leyfi landeiganda.
Rjúpnaveiðar eru almennt ekki leyfðar á eignarlöndum í eigu ríkisins nema það sé sérstaklega auglýst eða gefið leyfi til slíks af umsjónaraðila, umráðanda eða ábúanda hverju sinni.
Veiðar eru ekki leyfðar á jörðum í eigu ríkisins sem eru án umráðanda og eru í umsjá Ríkiseigna.

Óheimilt er að veiða á þeim hluta Suðvesturlands sem birtist á meðfylgjandi mynd.

Svæðið markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi.

Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn.
Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.