Hlýnun sjávar hefur áhrif á fiska

Hitastig sjávar við botn hefur farið hækkandi undanfarna tvo áratugi, en breytingarnar eru mismunandi eftir svæðum og dýpi.

Vísindamenn frá Hafrannsóknarstofnun og Háskóla Íslands hafa birt í vísindaritinu Scientific Reports grein sem byggir á gögnum úr 5390 togstöðvum í stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar árin 1996-2018 (haustrall).

Á þessu tímabili hefur ástand sjávar á Íslandsmiðum breyst mikið og markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif þeirra umhverfisbreytinga á útbreiðslu mismunandi fisktegunda. Alls voru 82 tegundir skoðaðar.

Áhrif þessara hitabreytinga voru skoðuð fyrir fisktegundir sem lifa við mismunandi hitastig á Íslandsmiðum.

Alls reyndist útbreiðsla helmings tegundanna hafa breyst og langflestar sýndu tilfærslu til vesturs, norðvesturs eða norðurs. Þessar breytingar á útbreiðslu voru mest áberandi hjá tegundum grunnslóðarinnar og þá sérstaklega hlýsjávartegundum og þeim sem lifa við þröngt hitastigsbil á Íslandsmiðum (stenothermal).

Tilfærsla tegundanna samfara 1°C hækkun sjávarhita var metin vera á bilinu 1-326 km, að meðaltali 38 km.

Líklegt er að hitastig sjávar muni halda áfram að hlýna á næstu árum og áratugum, en vegna landfræðilegrar legu Íslands og síbreytilegra haffræðilegra skilyrða gætu áhrifin á Íslandsmiðum orðið hægari, breytilegri og minna fyrirsjáanlegri en á öðrum svæðum.

Þessi rannsókn sýndi að heimasvæði 7% tegunda geti færst til um meira en 100 km við einungis 1°C hækkun hitastigs. Hækkun um 2-3°C væri því líkleg til að valda stórfelldum breytingum á útbreiðslu fiska og fiskveiðum við Ísland.