Í yfirlýsingu Hraðfrystihússins Gunnvör sem send var fjölmiðum segir að haft hafi verið samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða strax og veikindin komu upp.
Nu er upplýst að haft var samband við Heilbrigðisstofnunina en ekki farið að ráðum stofnunarinnar. Súsanna Björg Ástvaldsóttir, sóttvarnarlæknir segir í viðtali við Mannlíf að hennar tilmæli hafi verið mjög snemma í túrnum að fara strax í sýnatöku. Súsanna staðfestir það í samtali við Bæjarins besta að hennar tilmæli til útgerðarinnar hefðu verið að koma sem fyrst í sýnatöku.
Báðu um að fara í land
Hákon Blöndal vélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS segir í færslu á facebook að allir í áhöfninni hafi beðið um fara í land til sýnatöku. Hann segir að við grun um Covid smit um borð beri skipstjóra að hafa samband við landhelgisgæslu Íslands sem ákveður næstu skref. „í þessu tilfelli var verkferlum ekki fylgt og áhöfn fékk aldrei að njóta vafans og var lögð í mikla áhættu!“
Haft hefur verið samband við Einar Val Kristjánsson, framkvæmdastjóra HG. Beðið er svara.
Fréttin hefur verið uppfærð.