Galerí úthverfa: Double accounting – opnun á laugardaginn

Laugardaginn 3. október opnar sýningin ,,Double accounting’’ á verkum Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði.

 

,,Double accounting‘‘ (,,Tvöfalt bókhald‘‘) er fjórða innslagið í röð „matrix“ – sýninga – þ.e. sýninga þar sem horft er til mismunandi kerfa þar sem veruleikinn er skilgreindur innan efnismenningar. Nánar tiltekið kerfin sem einstaklingarnir eru greiptir í og ​​skapa þá tálmynd að enginn veruleiki sé fyrir hendi utan þeirra sjóndeildarhrings.

 

Bókhald er eitt af þessum kerfum. Kerfi búið til eingöngu úr tölum sem standa fyrir peningagildi. Peningagildi er sú mælieining sem öll önnur verðmæti virðast nú tilheyra. Það er líka áhugavert að velta fyrir sér bókhaldi sem slíku. Ekki bara sem hluta af efnismenningu. Maður getur líka hugsað sér það sem kóðann sem liggur að baki. Eins og í kóðun. Tölurnar í bókhaldi eru eins og tölurnar sem liggja að baki forriti.

 

,,Double accounting‘‘ (,,Tvöfalt bókhald‘‘) er þó ekki hugtak sem er til á ensku. Það er búið til með því að sameina tvö hugtök: það að vera með tvíhliða bókhald og hitt að halda tvo reikninga. Eitt er bókhaldskerfi sem er notað sem villugreiningartæki. Hitt er tæki til peningasvindls. Það sem þau gera bæði er að leggja til tvenns konar samhliða túlkun á sama veruleika. Annað á sitt hvorri hlið dálks (tvíhliða bókhald); hitt í tveimur aðskildum bókum. Eins og tvær útgáfur af lokuðum heimi sem eru samhverfar og jafnframt rökfræðilegar mótsagnir.

 

,,Double accounting‘‘ (,,Tvöfalt bókhald‘‘) er því heiti sýningarinnar þar sem kynnt eru prentverk byggð á tvöföldu kerfi til að flokka alheiminn með tveimur aðskildum aðferðum. Ein er byggð lauslega á frumspeki, eða heimspekikerfi sem fjallar um undirliggjandi lögmál veruleikans. Annað um (díalektíska) efnishyggju, eða skynjun veruleikans eins og hann birtist í efnisheiminum. Það sem þetta þýðir er efnahagslegur skilningur á raunveruleikanum. Eins og í framfærslu. Eins og í innviðum. Eins og í miklum fjölda mannslíkama sem samræma efnislegar þarfir sínar innan afmarkaðra innviða.

 

Úrval af átta prentum úr seríunni verður til sýnis í formi innsetningar við hlið höggmyndar sem fjallar um hugtakið „lausafjárstaða“ eða ,,seljanleiki‘‘ – hugtak sem gefur til kynna hversu auðvelt getur verið að skipta einum hlut út fyrir annan með peningum.

 

Sýningin hefur fengið styrk úr Starfslaunasjóði listamanna og Myndlistarsjóði.

 

Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar býr og starfar í Reykjavík, og þar til nýlega, einnig í Amsterdam. Verk hennar snúa að hinu súrrealíska, eru gjarnan hlaðin sögulegum og hugmyndafræðilegum tilvísunum, og taka á sig mynd í gegnum fjölbreytta miðla. Þeirra á meðal eru videó, texti, prent, sýningarstjórnun, skúlptúr, innsetningar og gjörningar. Sem verða fyrir valinu vegna getu þeirra til að mynda samband við viðfangsefni verksins sem gætir að hagsmunum bæði inntaks og forms. Þessu inntaki má lýsa sem glettnum samruna á milli hugmyndafræðilegra tilvísana, frumspekilegra vangaveltna, þráhyggju fyrir rúmfræði, og formlegum rannsóknum á efniskennd samtímamenningar.

Verk Geirþrúðar Finnbogadóttur Hjörvar hafa verið sýnd vítt og breytt í alþjóðlegu samhengi, þ.m.t. í Museo La Tertulia (CO), W138 (NL), Cosmos Carl, Overgaden (DK), Kunstverein Ingolstadt (DE) og Kunstverein Milano (IT), og hefur hún verið valin til að taka þátt í nafntoguðum residensíum svo sem í Rijksakademie van Beeldende Kunsten (NL) og Internationales Künstlerhaus Villa Concordia (DE). Á meðal sýningarstaða á Íslandi má nefna Listasafn Reykjavíkur, Nýlistasafnið, Suðsuðvestur, Hafnarborg, Kling og Bang og nú síðast sýninguna “Smásala” í Harbinger

DEILA