Formaður Fjórðungssambandsins: stöndum á tímamótum

Ávarp formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga á 65. Fjórðungsþingi

Sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum, starfsmenn Vestfjarðastofu og aðrir tilheyrendur.

Það er aðeins ein leið til að hefja þetta ávarp og það er með því að fagna málalokum í stjórnsýsluflækunni sem Teigsskógarmálið var. Úrskurðanefnd hefur kveðið upp sinn dóm sem þýðir að málið hefur loksins náð á endastöð í stjórnsýslunni. Vegagerðin mun bjóða út þverun Þorskafjarðar í haust og framkvæmdir geta þá hafist í vetur. 20 ára barátta fyrir mannsæmandi samgöngum og aldrei gáfumst við Vestfirðingar upp. Við erum svo sannarlega þrjóskari en andskotinn. Til hamingju Vestfirðingar allir! Það er þó þyngra en tárum taki að hugsa til þess að opinber stofnun – Skipulagsstofnun – hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt í málinu og þannig tafið enn frekar nauðsynlegar samgöngubætur á Vestfjörðum. Slíkt er algjörlega óboðlegt, því stofnanir okkar eiga að vinna með landsmönnum en ekki gegn þeim.

Talandi um samgöngur, þá eru miklar samgönguframkvæmdir í gangi á Vestfjörðum og verða áfram næstu árin. Því ber að fagna. Nú hafa bæði verið boðnir út vegkaflar á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, en jafnframt eru boðuð stór útboð vegna framkvæmda á þessum vegum sem á að ljúka árið 2024. Um er að ræða mestu fjárfestingar í samgönguinnviðum á Vestfjörðum í langan tíma á árabilinu 2018-2024. Áfram munum við leggja áherslu á að tryggja að Bíldudalsvegur, Innstrandavegur og Veiðileysuháls komist á kortið á þessu tímabili samgönguáætlunar í þessari miklu framkvæmdahringu. Mikilvægt er að þessar fjárfestingar nýtist og skapi slagkraft fyrir öfluga atvinnuuppbygginu, verðmætasköpun og umsvif, Vestfjörðum og Íslandi öllu til heilla. Einhverjir myndu segja að nú væru Vestfirðingar í dauðafæri.

Það er kannski erfitt að sjá tækifærin sem blasa við okkur Vestfirðingum akkúrat núna, mitt í þessu Covid-fári. Við sjáum ekki alveg fyrir endann á þessu, eins og er. Við erum með fyrirtæki sem róa lífróður sinn og sjá ekki enn í land. Við erum með sveitarfélög sem sjá ekki hvernig þau munu fjármagna nauðsynlega þjónustu þar sem framlög frá jöfnunarsjóði hafa verið skert verulega. Einmitt þess vegna er megin viðfangsefni þessa haustfundar covid-19 faraldurinn og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna hans. Það er gott fyrir okkur sveitarstjórnarfólk að hittast (innan gæsalappa) og skiptast á hugmyndum og leiðum sem færar eru í þessu árferði.

Kæru fundarmenn, árið 2021 mun vissulega litast af covid. Hér á þessu þingi verður farið yfir fjárhagsáætlun FV og Vestfjarðastofu sem rammar inn þau verkefni sem við ætlum í. Sveitarfélögum og aðilum atvinnulífsins verður boðað til fundar um gerð starfsáætlunar. Er sveitarstjórnarfólk hér með hvatt til að láta í sér heyra varðandi áherslurnar í henni. Hér á fjórðungsþingi verða lagðar línurnar með ályktunum og þeim skoðunum sem settar verða hér fram. Til þeirra verður litið við gerð starfsáætlunar. Fjórðungssamband Vestfirðinga er til fyrir sveitarfélögin, því á sveitarstjórnarfólk að segja til um hvaða verkefni eiga að vera í forgangi og hvaða verkefni mega missa sín. Látið í ykkur í heyra.

Gott sveitarstjórnarfólk. Verkefnin framundan eru mörg og þrátt fyrir covid-þokuna sem við ráfum í núna stöndum við á tímamótum. Vegna covid verða umsvif ríkisins umtalsverð á næstu tveimur árum. Við þurfum að tryggja hlut Vestfjarða í þessum framkvæmdum. Við þurfum tryggja að svæðið sé samkeppnishæft við önnur svæði á landinu. Áfram verða því raforkumál, fjarskiptamál og samgöngumál sett á oddinn hjá Fjórðungssambandinu, auk þess sem áherslan verður lögð á fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu. Við þurfum að fylgja eftir verkefnum Landsnets um uppbyggingu flutningskerfa á sunnanverðum Vestfjörðum og úrbætur á tengivirkjum og flutningslínum til að mæta óveðrum eins og það sem gekk yfir landið í desember og janúar síðastliðinn. Jafnframt þarf að fylgja eftir hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum. Minnum öll þingmenn á það loforð sem Alþingi gaf árið 2018, um að setja Vestfirði í forgang í raforkumálum.

Já, við stöndum á tímamótum. Með töluverðum samgöngubótum framundan, m.a. opnun Dýrafjarðargangna, skapast hér gífurleg tækifæri fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum. Tækifæri til að vinna meira saman, tækifæri til uppbyggingar og framþróunar atvinnulífs, tækifæri til að koma Vestfjörðum loksins á kortið. Við sáum hvað gerðist í sumar. Landsmenn flyktust til okkar og Vestfirðir urðu heitasti áningastaður landsins. Ég er sannfærð um að þetta sé það sem koma skal á næstu árum. Við erum á þeim tímapunkti að vera loksins að fá einhver af okkar stærstu baráttumálum í gegn og þá megum við öll klappa okkur svolítið á bakið. Komum okkur saman í gegnum þessa covid-þoku og förum svo fulla ferð áfram.

Hafdís Gunnarsdóttir

Formaður fjórðungssambands Vestfirðinga