Fjórðungsþing vill fresta kvótasetningu grásleppu

Fjórðungsþing Vestfirðinga sem  haldið var fyrr í október  ræddi fyrirhugaða kvótasetningu grásleppuveiða. Veiðarnar í ár voru stöðvaðar snemma sem komu illa við útgerðir á vestanverðu landinu, en þar byrja veiðar almennt seinna en norðan- og austanlands.

Fjórðungsþingið hvetur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra til að fresta framlagningu frumvarps, um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu o.fl). Einnig verði frestað framlagningu frumvarps um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).  

 

Fjórðungsþingið leggur til að stofnað verði til starfshóps með aðkomu sveitarfélaga, ráðuneyta, stofnana, háskólasamfélags, veiðiréttarhafa og afurðavinnslna. Vinna starfshópsins verði að móta stefnu um sjálfbæra nýtingu staðbundinna nytjastofna á grundvelli greiningar á áhrifum af hagkvæmri nýtingu svæðisbundinna nytjastofna á byggðarlög, lífríki og vistkerfi.  

 

Ný frumvörp verði lögð fram sem samþætti markmið um sjálfbæra nýtingu staðbundinna nytjastofna og markmið um eflingu byggðarlaga sem tengd eru nýtingu þeirra. 

 

Í greinargerð sem lögð var fram á þinginu segir að sérstaða við nýtingu sjávargróðurs og grásleppu er hversu staðbundin nýtingin er og hversu afgerandi nýtingin er fyrir vöxt og viðgang einstakra byggðarlaga. Staða samfélaga á Vestfjörðum sem nýta þessar auðlindir er einnig viðkvæm með tilliti til íbúaþróunar og efnahagslegrar stöðu. Forðast verði þá stöðu að breyting á lögum um fiskveiðistjórnun vinni gegn settum markmiðum í byggðamálum og auki óöryggi um framtíð samfélaganna. 

 

Þá segir í greinargerðinni: 

„Fjórðungsþing Vestfirðinga telur það því réttmæta kröfu, að sjónarmið er varða hagsmuni þessara samfélaga verði tekin til umfjöllunar við breytingu á lögum um fiskveiðistjórnun. Einnig telur Fjórðungsþing Vestfirðinga að málefnið skarist við skipulagsáætlanir sveitarfélaga og áætlanir stjórnvalda s.s. Landskipulagsstefnu og efla verði rannsóknir á lífríki, vistkerfum og tengsl samfélaga og auðlindanýtingar. Er það krafa Fjórðungsþings Vestfirðinga að stofnaður verið starfshópur með aðkomu sveitarfélaga, ráðuneyta, stofnana, háskólasamfélags, veiðiréttarhafa og afurðavinnslna. Hlutverk starfshópsins verði að greina áhrif nýtingar á efnahag, samfélög, lífríki og vistkerfi og setningu markmiða sem styðja við framþróun samfélaga og tryggi sjálfbærni nytjastofna.“