Fjórðungsþing: áhyggjur af innanlandsflugi

Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktaði um stöðu innanlandsflugsins á nýafstöðnu þingi sínu, sem haldið varmeð fjarfundarsniði.

Innanlandsflug lykilþáttur í þróun samfélaga

Í ályktuninni segir að Fjórðungaþingið lýsi miklum áhyggjum af áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á innanlandsflug til lengri tíma litið. Gerð er krafa á stjórnvöld að horfa til innanlandsflugs sem lykilþáttar fyrir þróun samfélaga og atvinnlífs og ekki verði dregið úr framlögum vegna stöðu dagsins í dag. Ítrekuð er krafa vestfirskra sveitarfélaga um hækkun á framlögum til innanlandsflugs og auknu fjármagni verði veitt til viðhalds og endurbóta á flugvöllunum á Gjögri, Bíldudal og Ísafirði og til flugleiðsagnar.

Reykjavíkurflugvöllur áfram

Þá minnir Fjórðungsþing á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Því er fagnað verkefninu Loftbrúin sem tók gildi á þessu ári.

Vantar fé í almenningssamgöngur

Þá var einnig ályktað um almenningssamgöngur utan höfuðborgarsvæðisins.

Lýst var áhyggjum af innleiðing heildarstefnu í almenningssamgöngum utan höfuðborgarsvæðis. Stjórnvöld hafa sett fram áhugaverða stefnu um eflingu almenningssamganga innan atvinnusvæða og þjónustusókn á milli landshluta en framlög til málaflokksins samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun verða lækkuð á næstu árum og því erfitt að sjá hvernig almenningssamgöngur utan höfuðborgasvæðisins geti gengið.